S÷gur afa Konn.

 

┴ me­an PÚtur Konrß­sson var ß lÝfi tala­i hann inn ß segulband til a­ stytta sÚr stundir ■egar hann var einn heima. ┴ ■essum snŠldum eru margar gˇ­ar s÷gur af honum sjßlfum og hans samtÝ­arm÷nnum. HÚr er Štlunin a­ birta ■essar s÷gur jafn skjˇtt og Gaui hefur pikka­ ■Šr upp eftir spˇlunum. Reynt ver­ur a­ halda or­alagi afa Konn og hans frßsagnastÝl, sem flestir Grundfir­ingar muna eftir og ■ˇtti svo skemmtilegur.

 

 

Villtir Ý Ůoku

Draumar

Yfir B˙landsh÷f­a

┴ Blikanum

LŠknir sˇttur

Gamlar minningar

 

 

 

 

 

Til baka ß forsÝ­u

 

Ferð eftir lækni

 

Ég var heima í Mýrarhúsum haustið 1927 í desember og var ræstur klukkan að ganga sex um morguninn og beðinn að fara að Gröf í Grundarfirði til þess að síma eftir lækni úr Stykkishólmi til þess að koma að Lárkoti í Eyrarsveit, því að þar stóð yfir barnsfæðing sem að gekk illa.

Ég fór nú af stað eins snemma og ég gat, fljótur að fara. Það var norðan bilur og strekkingsveður og er kominn inn að Gröf klukkan hálf níu um morguninn. Klukkan níu var hægt að ná í Stykkishólm, því að þetta var nú ef ég man rétt þriðja flokks stöð. Það náðist strax í lækninn og hann lofaði að koma, og koma sjóveg, sem að hefði tekið þrjá klukkutíma frá Stykkishólmi á trillubát út að Búðum í Grundarfirði. Þar átti ég að að taka á móti lækninum og við áttum að ganga frá Búðum og út að Lárkoti, sem var svona röskur hálftíma gangur ef það var fjara, annars stífur klukkutíma gangur. Það var mikill snjór á jörð og ég fór frá Gröf út að Búðum og beið þar eftir bátnum þangað til klukkan að ganga fimm. Þá sá ég það, að ég myndi tapa sjávarfalli í Hálsvaðal sem kallaður er, sem er vaðall sem að gengur innan frá Kvíabryggju og með Kirkjufellinu inn að vestanverðu.

Svo ég beið nú ekki lengur eftir bátnum og fór af stað heim, kom að Lárkoti í leiðinni, þvi að það var aðeins styttra þangað heldur en að Mýrarhúsum. Þá var mér sagt það, að það hafi verið sendur maður frá Gröf í Grundarfirði að láta vita að læknirinn gæti ekki komið vegna þess að það var barnsfæðing í Stykkishólmi sem að gekk illa. Það var kona sem að mig minnir var komið með vestan úr eyjum og það gekk illa fæðingin og læknirinn þorði ekki að fara frá henni.

Þá var sent út á Búlandshöfða. Þar voru tveir bræður heima, fullorðnir menn og þeir beðnir að fara út í Ólafsvík og ná í lækni sem þar var. Hann hét Eiríkur ég man nú ekki hvers son hann var, duglegur maður og ferðamaður mikill, enda hafði hann stórt hérað. Hann hafði Breiðuvík og Bervík, Sand, Ólafsvík og Fróðárhrepp. Ég er beðinn þarna á Lárkoti að fara, þegar ég sé búinn að hafa sokkaskipti og fá mér að borða eitthvað, að fara út að Búlandshöfða og bíða eftir lækninum þar því að bræðurnir á Höfða séu að ná í Eirík.

Ég gerði þetta. Ég var kominn að stað aftur klukkan hálf sjö, út að Búlandshöfða. Það var mikil ófærð, mikil ófærð. Snjór alltaf í hné og dýpra. Það var drengur með mér, sem var þrettán ára gamall og var uppeldissonur bóndans sem að bjó í Lárkoti. Hann hét Árni og var nú Elisson. Nú við biðum á Búlandshöfða þangað til klukkan þrú um nóttina. Þá kom annar bróðirinn frá Höfða með lækninn, en hinn bróðirinn gafst upp. Vegna ófærðar, þá gafst hann upp í Mávahlíð og gisti þar, en Björn bóndinn á Höfða annar, hann kom með lækninn inn eftir og við tókum við honum þar. Læknirinn spurði mig strax að því hvort ég væri með hest fyrir sig.

Ég sagði nei, ég væri ekki með hest. Hann varð reiður og spurði mig hvort ég gæti náð í hest. Ég sagðist geta það, því að það væru tveir hestar sem væri ekki búið að taka á hús ennþá. þeir væru hér inn á milli bæja hér inn á Látravík sem var ekki nema tuttugu mínútna gangur hefði það verið öðru vísi heldur en var. Þá bað hann mig að fara á undan, hann ætlaði að láta Árna bera töskuna og ganga, ef ég næði í annan hestinn fyrir sig til þess að komast yfir Lárvaðal því að það var að falla út úr Lárvaðli og mundi vera hægt að vaða þar á svokölluðum stillum. Það voru eyrar sem að grynnti fyrst á, á milli Skerðingsstaða og Lárkots. Nú! ég hitti hestana fyrir innan Látravík og batt snæri upp í annan hestinn og beið eftir þeim. Þeir komu og Læknirinn fór glaður á hnakklausan klárinn.

Ég gekk á undan og við gengum inn að Skerðingsstöðum og þar í vaðalinn og hann var okkur strákunum í buxnavasa yfirleitt yfir að Lárkoti, en læknirinn hann komst nú svona þurrt og hann hirti töskuna. Nú klukkan fjögur rúmlega um náttlag komum við að Lárkoti og þá var ég nú feginn að fara heim til mín, fara úr blautu og fara að sofa. En klukkan níu um morguninn þá var ég vakinn til þess að fara og fylgja lækninum aftur. En þá sagðist ég nú ekki geta verið að leggja mig í það, því það væri hægt að fá mann af næsta bæ og það var gert. Það var fenginn maður af Kvíabryggju sem að hét Jónmundur og var Einasson, duglegur maður. Hann fylgdi lækninum út að Mávahlíð og þar var hesturinn sem hann var á frá Ólafsvík og þangað inn eftir um nóttina áður. Jónmundur fylgir lækninum út að Ólafsvík og gisti þar hjá bróður sínum Soffaníasi Guðmundssyni og kom svo daginn eftir.

En þessari ferð er óhætt að líkja við margar aðrar að vetrarlagi til sveita. Ég man líka eftir læknisferð úr svokölluðu Eyrarplássi í Eyrarsveit þegar að ég var níu ára gamall. Þá var kona við barnsburð í Ytri Tröð í Eyrarplássinu. Hún átti fimm börn sem ég man eftir.

Það var mannað stórt fjagra manna far. Þeir fóru á honum sjö karlmenn. Það var norðan veður og skafrenningur. Þeir voru sex klukkutíma að berjast til Stykkishólms á móti veðri og komu úteftir klukkan, eða læknirinn hann kom fyrstur. Þeir gengu úr svokölluðum Eyrarodda, það er hálfs annars tíma leið í ófærð eins og var þá. Hann gekk á undan strax og báturinn var lentur, hinir fóru að setja upp bátinn og búa um hann.

Hann hélt áfram upp að Tröð, en þá var konan dáin með tveimur börnum, því hún hafði gengið með tvíbura. Svona mætti nú kannski segja margar sögur af þessum erfiðleikum í þá daga.

Sem betur fer, að þá er þetta nú ekki lengur.